2020-11-19
Fimmtudaginn 19.nóvember s.l. fór fram upphafsfundur NICHE verkefnisins sem styrkt er af Erasmus+, Samstarfsáætlun Evrópusambandsins. Enskt nafn verkefnisins er NICHE - Nurturing Intangible Cultural Heritage for Entrepreneurship sem á íslensku mætta þýða sem Varðveitum óáþreifanlegan menningararf fyrir frumkvöðlastarf.
Verkefnið miðar að því að efla frumkvöðlastarf í menningargeiranum með því að leggja aukna áherslu á óáþreifanlegan menningararf og þróa nýstárlegar aðferðir í kennslu og þjálfum um efnið. Markhópurinn er núverandi og tilvonandi fagfólk í greininni og er ætlunin að auka samkeppnishæfni og viðhalda vexti hennar.
Óáþreifanlegur menningararfur er í raun mikilvægari fyrir lönd Evrópu en bílaiðnaðurinn í heild sinni. Yfir 300.000 störf í Evrópu má tengja beint við óáþreifanlegan menningararf og tæplega 8 milljónir starfa má tengja óbeint við geirann (t.d. ferðaþjónusta). Fyrir hvert beint starf tengt óáþreifanlegum menningararfi skapast 26.7 óbeint starf. Til samanburðar skapast einungis um 6,3 óbein störf fyrir hvert beint starf í bílaiðnaðinum.
Verkefnin sem unnin verða innan NICHE eru því t.d. að:
1) Skilgreina hvað óáþreifanlegur menningararfur felur í sér og hvaða eiginleikar og hæfni þurfa að vera til staðar hjá þeim sem starfa innan geirans. Þetta verður skoðað með tilliti til Evrópska hæfnirammans.
2) Þróa námsefni um óáþreifanlegan menningararf sem byggir á nýstárlegum aðferðum. Umfjöllunarefnin verða t.d. stjórnun, fjáröflun og stafræn framsetning
3) Búa til kennsluvef sem verður þungamiðjan í miðlun á kennsluefni verkefnisins. En efninu er ætlað að auka við færni og hæfni starfsfólks innan geirans. Þannig verða einstaklingarnir samkeppnishæfari og geta svarað kröfum um öra þróun og vaxandi markað.
Til stóð að upphafsfundur verkefnisins færi fram í Brussel en vegna COVID-19 faraldursins fór fundurinn fram á netinu. Þátttakendur í verkefninu fengu tækifæri til að kynna sig og stofnanirnar sínar í upphafi fundarins en að kynningunum loknum var farið yfir verkáætlun verkefnisins, sem og markmið og áætlaðan árangur af verkefninu. Þá var valið lógó fyrir verkefnið og drög sett saman að heimasíðu verkefnisins. Loks var settur saman aðgerðalisti fyrir verkefnið í heild sinni þannig að allir þátttakendur gengu út af fundi með vel skilgreind hlutverk innan verkefnisins hvað varðar ábyrgð og tímamörk.
NICHE verkefnið er tveggja ára verkefni sem hefst í lok árs 2020 og lýkur árið 2022. Þátttakendur í verkefninu eru níu talsins og koma frá sjö löndum Evrópu; Ísland, Belgía, Grikkland, Írland, Ítalía, Spánn og Svíþjóð. Sótt var um verkefnið á Íslandi og fara samstarfsaðilar Nýheima Þekkingarseturs, Þekkingarnet Þingeyinga á Húsavík með verkefnastjórn yfir verkefninu.